Tekur sjórinn lengur við?

Upp úr 1980 voru hinir sovésku Lada bílar mjög vinsælir hér á landi. Á sama tíma urðu landanir rússneskra verksmiðjutogara algengari hérlendis. Áhafnir þeirra höfðu það gjarnan sem aukaiðju að kaupa gamlar Lödur af Íslendingum. Bílarnir voru í kjölfarið fluttir yfir hafið til heimalandsins þar sem skortur var á varahlutum.

Lödurnar voru svo rifnar niður í hafi, hirt það sem nýtilegt var og restinni hent í hafið. Sjálfur var greinarhöfundur á sjó á þessum árum og hann man eitt vorið þegar verið var að gera skipið klárt til veiða, að járnúrgangur var hífður upp á dekkið úr vélinni. Þessu járnarusli var ekki landað til endurvinnslu eins og nú tíðkast, heldur var því hent í hafið þegar komið var út í Faxaflóann. Enginn kippti sér upp við þetta enda var tíðarandinn sá að „lengi tæki sjórinn við“. Rusleyjan, sem nú flýtur á Kyrrahafinu, margfalt stærri að flatarmáli en Ísland, er æpandi mótsögn þess spakmælis.

Maríneraður fiskur í plasti!
En járnúrgangur er ekki endilega það versta sem fyrirfinnst í hafinu. Samkvæmt nýlegri skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins (WEF) er 1 tonn af plasti í hafinu fyrir hver 5 tonn af fiski. Samkvæmt sömu skýrslu er því haldið fram að árið 2050 verði meira af plasti í sjónum en af fiski! Þetta kom m.a. nýlega fram í Landanum á RÚV. Hefur einhver áhuga á að snæða maríneraðan fisk í plasti?

Ef gengið er um fjörur landsins má nær alls staðar sjá merki um plastúrgang. Jafnvel á afskekktum stöðum eins og á Hornströndum er fjaran þétt setin slíkum úrgangi. Auk þess má finna plastagnir í hafinu sem ekki sjást, eða svokallað örplast. Það verður m.a. til þegar plastið brotnar niður í náttúrunni. Einnig getur þetta ósýnilega plast komið úr þvottavélum okkar,  t.d. þegar flíspeysa er þvegin, og endað í hafinu. Litlar agnir sem þessar eiga greiðari leið inn í lífverur eins og fisk sem þýðir að plastefnið endar í fæðukeðju okkar, jafngeðslegt og það nú er.

Þegar gengið er í gegnum matvöruverslun má sjá að nær allar vörur eru í plastumbúðum. Flest handleikum við því plast umhugsunarlaust ótal sinnum á dag. Fáir gera sér hins vegar grein fyrir því að plastúrgangur er ein mesta mengunarvá nútímans. Tæplega 80 milljónir tonna af plastumbúðum eru framleiddar á ári hverju á heimsvísu. Vandamálið er að árlega enda 25 milljónir tonna úti í náttúrunni. Það tekur plast svo allt að 500 árum að leysast upp í umhverfinu þannig að vandamálið er mjög langvarandi.

Verður sjávarfang talið heilsuspillandi?
Þessi þróun verður að teljast sérstaklega alvarleg fyrir Íslendinga, þar sem sjávarútvegur er einn okkar stærsti atvinnuvegur. Öruggt er að eitthvað af öllu þessu plasti í hafinu endar í fæðukeðju okkar. Sú litla þekking sem er fyrir hendi á þessu sviði bendir til þess að hér sé veruleg heilsuógn á ferðinni. Hve mikil veit enginn, enda eru rannsóknir á þessu sviði takmarkaðar. Ef fram fer sem horfir, er sá möguleiki fyrir hendi að sjávarfang verði flokkað sem heilsuspillandi þegar fram líða tímar. Orðatiltækið lengi tekur sjórinn við, á því ekki við lengur.

Hvað er til ráða?
Lausnin felst í því að draga úr notkun plastumbúða og að endurvinna það plast sem er í umferð. Plast er flokkað á heimili greinarhöfundar og það kemur honum ævinlega jafnmikið á óvart hve það er mikið. Hvað hafið varðar er spurningin jafnvel hvort ekki þurfi að reyna að „veiða“ plastið úr því. Margir ímynda sér að hafið í kringum landið sé hreint og út á það gengur markaðssetning íslenskra sjávarafurða. Það er gagnrýni vert að stjórnvöld skuli lítið sem ekkert hafa gert til að láta rannsaka og kortleggja þetta vandamál. Fjörurnar hafa t.d. verið hreinsaðar af sjálfboðaliðum þar sem ríkið hefur ekki lagt neitt til.

Spurning um hugarfar og áherslur
Við höldum gjarnan að mengunarógnin sé meiri annars staðar en hjá okkur. Með þessu hugarfari siglum við sofandi að feigðarósi þrátt fyrir að fólk sé almennt meðvitaðra en áður um umhverfismál. Skoðanakannanir sýna enda að 90% landsmanna eru jákvæðir gagnvart endurvinnslu. Viljinn til að flokka plast ætti því að vera fyrir hendi. 

Í máli Helga Lárussonar, framkvæmdastóra Endurvinnslunnar, á morgunverðarfundi Samtaka iðnaðarins í janúar, kom margt athyglisvert fram um endurvinnslu hér á landi. Hann sagði m.a. að þegar væri búið að virkja þá endurvinnslu sem gæfi af sér en það sem ætti eftir að endurvinna væri mun dýrara í framkvæmd og sú staðreynd ylli ákveðinni tregðu. Hann sagði einnig að stóriðjufyrirtækin á Íslandi stæðu sig vel í endurvinnslu og að flest þeirra væru að endurnýta 95% af sínu endurkasti. Ál er sérstaklega vel fallið til endurvinnslu enda eru um 75% af öllu áli sem framleitt hefur verið í heiminum síðan 1888 enn í virkri notkun. Um 90% af áldósum hér á landi rata í endurvinnslu, þannig að Íslendingar standa mjög framarlega bæði í framleiðslu á áli og endurvinnslu þess.

Við Íslendingar þurfum að leggja aukna áherslu á umhverfismál, endurvinnslu og bætta umgegni um náttúruna á komandi árum. Þessi mál varða bæði almenning og atvinnulíf þar sem  sjávarútvegur og ferðaiðnaður þrífast á hreinleika náttúrunnar. Síðast en ekki síst þurfum við að reka ábyrga stefnu á þessu sviði gagnvart komandi kynslóðum.


Seðlar og svindl

Það vakti athygli á síðasta ári þegar Morgunblaðið greindi frá því að konu nokkurri hefði verið meinuð afgreiðsla í Hagkaupum í Garðabæ. Þar ætlaði hún í sakleysi sínu að greiða fyrir vörur með tíu þúsund króna seðli en afgreiðslumaðurinn á kassa var nú ekki aldeilis á því. Hann spurði: „Er þetta eitthvert djók“ og þverneitaði að taka við seðlinum sem hann sagði að væri ekki íslenskur gjaldmiðill! Ástæðan fyrir þessum misskilningi var sennilega sú hve 10.000 kr. seðlar eru sjaldgæfir meðal almennings hér á landi.

10000

 

 

 

 

 

 

Gjaldmiðill undirheima
Því er reyndar haldið fram að stórir seðlar séu mest notaðir í svörtum viðskiptum og í undirheimum samfélagsins. Að minnsta kosti er víst að glæpamenn eru mjög áhugasamir um stóra peningaseðla enda felst gagnsemi reiðufjár í því að það er nafnlaust og yfirleitt órekjanlegt. Samkvæmt könnun sem Breska SOCA stofnunin (Serious Organised Crime Agency) stóð fyrir kom í ljós að 90% af öllum 500 evra seðlum í UK voru í höndum skipulagðrar glæpastarfsemi! Í kjölfarið, árið 2010, var Bresku gjaldeyrismiðluninni (Bureaux de Change) bannað að selja 500 evra seðla í Bretlandi.

500

Þegar 500 evra seðillinn leit dagsins ljós árið 2002 fékk hann fljótt viðurnefnið Bin Laden, því að mjög fáir höfðu séð hann þó að tilvist hans væri vel kunn! Síðla árs 2011 voru 600 milljónir 500 evra seðla í umferð á Evrusvæðinu – þrátt fyrir að peningaseðill með svo háu verðgildi sé mjög óhagkvæmur sem daglegur greiðslumiðill og varhugavert að bera hann á sér. Það skiptir kannski töluverðu máli að ein milljón breskra punda í £20 seðlum vegur 50 kg en sama upphæð í 500 evra seðlum vegur aðeins 2,2 kg. Þessi gríðarlegi munur á fyrirferð og þyngd varpar ljósi á mikilvægi aðgengis að stórum peningaseðlum fyrir skipulagða glæpastarfsemi.

Eflaust er allt í stakasta lagi með notkun 10.000 kr. seðla hér á landi og fráleitt að bera verðgildi þeirra saman við verðgildi 500 evra seðla sem eru sjöfalt verðmeiri. Áhugavert væri hins vegar að vita hverjir nota helst 10.000 kr. seðlana á Íslandi. Í október 2013 var nýr 10.000 kr. seðill settur í umferð. Tilgangur með útgáfu hans var að gera greiðslumiðlun á Íslandi hagkvæmari, m.a. með því að fækka seðlum í umferð. Nú er hlutur tíu þúsund króna seðílsins að því er best verður vitað kominn yfir 20% af heildarverðmæti seðla í umferð en hlutur 5.000 kr. seðilsins líklega kominn niður í rúm 60%.

Suðræn sveifla
Í löndum S-Evrópu er notkun seðla (reiðufjár) miklu meiri en í álfunni norðanverðri. Á Grikklandi og Ítalínu hafa svarti markaðurinn og undanskot frá skatti átt stóran þátt í að eyðíleggja hagkerfi þessara landa. Það vakti líka athygli þegar húsnæðisverð á Spáni hækkaði skyndilega í kjölfar þess að Þjóðverjar skiptu úr þýskum mörkum sem opinberum gjaldmiðli yfir í evrur árið 1999. Ástæðan var sú að það var allt of hættulegt fyrir glæpasamtök að reyna að skipta stórum upphæðum í þýskum mörkum yfir í evrur. Millileikurinn fólst í því að fjárfesta í húsum á Spáni þar sem algengt var að greiða fyrir stórar eignir með seðlum og þýsku mörkin boðin velkomin.

Reiðufé og rafræn viðskipti
Almennt er talið að rafræn viðskipti dragi úr svörtum viðskiptum og svindli miðað við notkun reiðufjár. Þegar um falsaðar innistæður er að ræða er vissulega einnig hægt að svindla rafrænt, en á einhverjum tímapunkti er fjármunum skipti yfir í seðla, vegna þess að án þessa þreps gætu yfirvöld rakið ferli fjármunanna alla leið að viðtakendum. En reiðuféð rýfur rafrænu keðjuna og eyðileggur þar með rekjanleikann. Að taka reiðufé út fyrir sviga, og þá sérstaklega seðla með hæstu verðgildin, myndi gera sumar tegundir glæpastarfsemi illframkvæmanlegar auk þess að svört atvinnustarfsemi hyrfi nánast og verulega drægi úr skattsvikum.

Reiðufjárlausar verslanir hafa miklu minna aðdráttarafl fyrir þjófa. Rafræn viðskipti draga ekki aðeins úr hættu á búðarránum og þar með hættu fyrir starfsfólk. Korthafar njóta þessa öryggis líka – fólk þarf ekki að burðast með lausafé á sér, glatar því ekki reiðufé og kortin eru varin gegn þjófnaði. Slíkt öryggi er hægt að meta til verðmæta í samfélaginu. Það er því réttmæt spurning hvort verslunum ætti að vera í sjálfsvald sett hvort þær taka við reiðufé eða ekki. Danska verslanakeðjan Dansk Supermarket gerir t.d. ráð fyrir því að geta sparað tugi milljóna danskra króna árlega í framtíðinni með því að lágmarka upphæð reiðufjár í verslunum sínum.

Ísland – land greiðslukorta
Greiðslukort njóta greinilega lýðhylli á Íslandi því að Ísland er nú það land í heiminum sem kemst næst því að vera seðlalaust samfélag. Um allt að 80% af greiðslum fyrir verslun og þjónustu eru framkvæmd með greiðslukortum á móti 20–25% að meðaltali í Evrópu. Af þessu leiðir að reiðufjárnotkun í virkri greiðslumiðlun er hvergi minni meðal þjóða heimsins en hér á landi. Meðal kostanna við rafræn kortaviðskipti má nefna aukið gegnsæi, allt er uppi á borðinu og undanskot frá skatti minni.

Visa

Það er stór munur á að rétta manni, sem lagar þakið á húsinu þínu eða vinnur á barnum þínum, peningaseðla eða leggja rafrænt inn á reikninginn hans. Síðari greiðslumátinn er rekjanlegur og þar með er stigið yfir ákveðna línu. Við þetta bætist siðferðilegt fordæmi. Þeir sem eiga hlutdeild í skattsvikum með peningagreiðslum undir borðið geta kannski afsakað sig með því að margir aðrir geri slíkt hið sama. En í samfélagi þar sem langflestir greiða skatta og skyldur lögum samkvæmt, verður þrýstingurinn meiri á að breyta rétt. Slíka viðhorfsbreytingu má meta til verðmæta í samfélaginu.

 


Megn óánægja íbúa með kísilverin í Helguvík

Vaxandi óánægju gætir meðal íbúa Reykjanesbæjar vegna umhverfisáhrifa fyrirhugaðra kísilmálmvera United Silicon og Thorsil í Helguvík. Neikvætt viðhorf íbúanna byggist á ótta við samanlögð mengandi áhrif frá verksmiðjum fyrirtækjanna tveggja mjög nærri íbúabyggð.

Fyrir liggur að verði bæði kísilmálmverin byggð í samræmi við fyrirliggjandi áfangaáætlanir, muni loftgæði í nágrenninu rýrna tilfinnanlega og brennisteinsmengun í andrúmslofti fara yfir lögmælt viðmiðunarmörk í íbúðahverfum Reykjanesbæjar. Sérfræðingur, sem greinarhöfundur innti álits, segir útlilokað að bæði kísilmálmverin geti hafið starfsemi. Strax við starfrækslu 1. áfanga fari sameiginleg efnalosun frá verksmiðjunum yfir leyfileg mörk.

Nánd við skóla
M.a. hefur verið bent á að í aðeins rúmlega kílómetra fjarlægð frá kísilmálmverunum séu fjórir leikskólar. Að auki séu þrír grunnskólar í nágrenni við verksmiðjanna. Þetta þýði að þessi börn og unglingar muni búa við stöðuga loftmengun þar sem flest þeirra búi í nærliggjandi hverfum. Eftir því sem næst verður komist, er ekki heimilt að reisa kíslmálmver svo nærri íbúabyggð í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Þar sé skilyrt að fjarlægð frá mannlífi sé mun meiri.

Er loftmengun af þessu tagi yfirleitt ásættanleg fyrir íbúa í þéttbýli? Það orð fer af kísilmálmverksmiðjum af þessi tagi að þær losi óhóflegt magn gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Óljóst er jafnframt hvort aðföng hráefnis til beggja verksmiðjanna muni standast kröfur um varnir gegn rykmengun. Heyrst hefur að muldu kísilgrjóti verði mokað upp úr lestum skipa í Helguvíkurhöfn með grabba og því síðan skellt á færiband í opnu kerfi með tilheyrandi ryklosun, líkt og gert er hjá kísilmálmverksmiðju Elkem á Grundartanga. Ef rétt reynist, getur slík mengun reynst afar hvimleið íbúum í nærliggjandi byggðum þegar vindátt er óhagstæð. 

Efasemdir um lögmæti
Það eru ekki einungis íbúar Reykjanesbæjar sem gagnrýna þessi áform. Heyrst hefur að forvígismönnum Thorsil hugnist ekki hvernig standa á að málum og mengunarvörnum hjá United Silicon. Lengi hefur verið spurt hvort löglega hafi verið staðið að mati á umhverfisáhrifum vegna kísilmálmvers United Silicon í Helguvík. Svo virðist sem danska fyrirtækið  Cowi hafi verið skrifað fyrir matsgerð í byrjun en það svo skyndilega horfið úr matsskýrslum án skýringa en íslenskir aðilar komið í staðinn. Í millitíðinni var lofað gögnum og útskýringum frá Cowi sem aldrei komu.

United Silicon hefur einnig gert athugasemdir um fyrirhugaða starfsemi Thorsil á svæðinu með erindi til Skipulagsstofnunar dags. 3. desember 2014 sbr.: „…þegar samlegðar- og sammögnunaráhrif allra iðnfyrirtækja með starfsleyfi á Helguvíkursvæðinu eru reiknuð, og fyrirhuguaður útblástur Thorsils bætist við, myndi brennisteinsmengun í andrúmsloftinu fara yfir lögmælt viðmiðunarmörk í norðurhluta Reykjanesbæjar…“.

Því má velta fyrir sér hvers vegna nauðsyn ber til að staðsetja kísilver svo nálægt íbúðabyggð í jafn dreifbýlu landi og Íslandi. Hefði ekki mátt færa verksmiðjurnar fjær byggð til að betri sátt næðist um málið? Var byrjað á öfugum enda? Þetta eru áleitnar spurningar meðal fólks í nærliggjandi sveitarfélögum og víðar.


Spennandi starfsemi en ómæld mengun

Yfir 100 íslensk íslensk fyrirtæki hafa undirritað yfirlýsingu um að þau hyggist draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Yfirlýsingin verður afhent á loftslagsráðstefnunni í París í desember, en Ísland hefur ásamt ríkjum Evrópusambandsins lýst því yfir að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40%.

Misjafnt aðhald
Eitt af því sem einkennir starfsskilyrði íslenskra stóriðjuvera er strangt eftirlit með losun efna út í andrúmsloftið ásamt upplýsingum um niðurstöður vísindalegra mælinga. Minna hefur farið fyrir umræðu um losun efna frá öðrum atvinnugreinum eins og t.d. ferðaiðnaðinum.

Í skýrslunni „Aðgerðir í loftlagsmálum“, sem unnin var af samstarfshópi fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra 2013, sést að stóriðjan losaði samtals 1,8 milljónir tonna af koltvísýringi (CO2) út í andrúmsloftið árið 2010. Til samanburðar losaði sjávarútvegur 0,58 milljónir tonna af koltvísýringi og landbúnaður 0,65 milljónir tonna. Hér eru ótalin gríðarleg áhrif af framræslu mýrlendis sem er eitt stærsta vandamál Íslendinga á þessu sviði en koltvísýringur er að magni til veigamesta gróðurhúsalofttegundin.

Ný tegund stóriðju
Íslenskur ferðaiðnaður hefur vaxið með glæsibrag á undanförnum árum, jafnvel svo að undrum sætir. En er ferðaþjónustan jafn vistvæn og af er látið? Er kannski ástæða til að beina sjónum að umhverfisáhrifum þessarar atvinnugreinar og þá ekki síst hraðvaxandi umferð um flugvöllinn í Keflavík? Ferðaþjónustutengt flug til og frá Íslandi er nefnilega orðið að stóriðju sem losar mikið magn af gróðurhúsalofttegundum. Hver þota á flugi losar, að því er talið er, á bilinu 100 til 200 grömm af koltvísýringi að meðaltali á kílómetra og farþega. Sé miðgildið (150) heimfært á fjölda farþega, sem fóru um Leifsstöð árið 2014, er heildarmagn koltvísýrings sem flugið losar a.m.k. 8,5 milljónir tonna á ári. Við bætist að áhrif af mengun í háloftunum eru mun alvarlegri en af mengun á jörðu niðri, m.a. vegna þess að mengun flugvéla leiðir beint í ósonlagið.

Varnaðarorð
Í greininni „Flugslóðir valda hlýnun“ sem Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, reit árið 2011 kemur eftirfarandi fram: „Nú kemur í ljós, samkvæmt rannsóknum Ulrike Burkhardt og Bernard Kärcher, að áhrifin á loftslag og hlýnun jarðar frá þessum flugslóðum og skyldum skýjum eru miklu meiri en frá því koltvíoxíði sem þoturnar dæla frá sér. Skýin draga í sig langbylgjugeislun, sem berst frá jörðinni, og orsaka með því óæskilega hlýnun.“

Í grein eftir Örnólf Thorlacius í Morgunblaðinu árið 2007, undir fyrirsögninni „Loftmengun í loftferðum“ kemur fram að mengun í háloftunum er allt að fjórum sinnum skaðlegri en af sömu efnum á jörðu niðri. Þetta þýðir að fjórfalda má þá koltvísýringsmengun sem þotuflug í tengslum við íslenskan ferðaiðnað veldur. Það er há tala.

Ferðaþjónustutengt flug til og frá Íslandi mengar margfalt meira en nokkur önnur starfsemi hérlendis. Vissulega er ljómi yfir þróun ferðaiðnaðarins en er ekki tími til kominn að fylgjast betur með umhverfisáhrifum þessarar ágætu atvinnugreinar?


« Fyrri síða

Um bloggið

Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur

Þorsteinn Þorsteinsson
Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur starfar sem markaðsráðgjafi og markaðsrýnir. Hann er rekstrarhagfræðingur (M.Sc.) frá Lund University, og er framkvæmdastjóri Markaðsrýni ehf.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Visa
  • 500
  • 10000
  • 10000
  • 10000

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband