Ný sýn á orkumál

Konur í orkumálum (KÍO) stóðu nýlega fyrir opnum fundi hjá Arion banka. Yfirskrift fundarins var: „Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi: Eru smávirkjanir framtíðin?“ Hrósa ber KÍÓ fyrir þetta framtak. Hugmyndin um aukna nýtingu smærri virkjanakosta hérlendis er í takti við þróunina erlendis og þá hugsun að margt smátt geri eitt stórt. Umræðan kallast að sama skapi á við þau hagfræðilegu vatnaskil sem felast í innreið deilihagkerfis víða um heim. Viðskiptaeiningar á borð við Über, Lyft, og Airbnb hafa skapað nýja tegund markaðstorgs þar sem hver reiðir sig á framtak og fjárfestingar annarra.

Áhugaverður samanburður
Margt fróðlegt kom fram á fundinum. Smærri virkjanir í héraði, bæði rennslisvirkjanir, vindrafstöðvar og aðrir orkuöflunarmöguleikar, hafa sína kosti. Hér má nefna aukið afhendingaröryggi og minni flutningskostnað vegna nálægðar við notendur. Staðsetning slíkra smávirkjana víðs vegar um land getur reynst hagkvæm í bland við stærri orku- og flutningsmannvirki. Því fleiri sem smáu orkueiningarnar eru, þeim mun betri grundvöllur skapast fyrir staðbundið deili- og samstarfsnet. Og þeim mun meiri getur ávinningurinn jafnframt orðið, bæði fyrir viðkomandi framleiðslueiningar og samfélagið í heild.

Ef lítil rennslisvirkjun eða vindmylla framleiðir mun meiri orku en eigandinn hefur þörf fyrir, getur verið hagkvæmt að senda afgangsorkuna í gegnum tenginet þangað sem hennar er þörf. Þar með léttir líka á orkuþörf í gegnum stóru flutningskerfin og sveigjanleiki eykst í raforkukerfinu í heild.

Áhugavert er að skoða þessar staðreyndir í samhengi við áherslur Landsnets í flutningsmálum en fyrirtækið kynnti nýlega kerfisáætlun fyrir tímabilið 2016 til 2025. Aðallega er þar til skoðunar að leggja nýja byggðalínu umhverfis landið eða leggja línu yfir hálendið. Hvort tveggja kallar á dýrar framkvæmdir með tilheyrandi umhverfisraski. Slíkar framkvæmdir eru vafa undirorpnar, ekki bara vegna þess að forðast verði þenslu í ríkisfjármálum, heldur vegna þess að ekki eru dæmi um neitt slíkt hámarksálag að ræða á byggðalínuna að það kalli á stækkun hennar. Einu tilvikin þar sem þörf er fyrir meiri flutningsgetu er staðbundin þörf frá virkjun yfir í stóriðjuver. Slíkan vanda er best að leysa staðbundið.

Áhugaverður möguleiki væri að ríkið/Landsnet veiti jafnvel styrki til uppbyggingar á röð smávirkjana þar sem þörf væri á til að þurfa ekki að ráðast í miklu dýrari uppbyggingu á stóra flutningakerfinu. Ef miðað er við framleiðslu á 100 MW samanlagt gæti slíkur styrkur t.d. numið 5-10 milljörðum ef miðað er við 10-20% af kostnaði. Á móti má hugsa sér sparnað í kringum 100 milljarða við byggingu nýrrar byggðalínu.

Ný hugsun að taka við?
Sjálfbærar leiðir til öflunar raforku eiga upp á pallborðið hjá neytendum og hneigð í þá veru er greinileg á heimsvísu, eins og fram kom á fundi Kvenna í orkumálum. Áherslan er á dreifðari raforkuvinnslu og að hún sé nær notandanum. Sólarsellur á húsþökum eru dæmi um eigin heimilisrafstöðvar. Einnig er verið að þróa vinnslu orku úr jarðhita fyrir heimilisafnot.

Óumdeilt er að Ísland er vel til þess fallið að beisla vindorku. Íslenskt fyrirtæki, sem hefur verið að þróa leiðir á þessu sviði, er Icewind, sem hefur þróað litlar vindrafstöðvar til heimilisnota. Einnig má nefna XRG Power sem hefur þróað einkarafstöðvar þar sem rafmagn er unnið úr jarðhita.

Athyglisverðast er þó kannski að smærri virkjanir hér á landi, sem eru nær notandanum, virðast vera samkeppnishæfar við stærri virkjanir ef rétt er á spöðunum haldið. Hér er fyrst og fremst um að ræða smærri vatnaflsvirkjanir en aðrir kostir virðast einnig vera að ryðja sér til rúms. Búnaður í smærri vatnsaflsvirkjanir er orðinn mjög tæknilega þróaður og eftir því sem meira er keypt af honum, þeim mun lægra verður verðið eins og raunin hefur orðið með sólarsellur undanfarin ár.

Ýmislegt bendir því til nýs blómaskeiðs „smávirkjana“ eins og forðum daga í sveitum landsins þegar bændur virkjuðu bæjarlækinn. Smávirkjanir og litlar rafstöðvar til heimilisnota eru a.m.k. kostir sem vert að skoða nánar. Óhætt er að fullyrða að það séu virkilega spennandi tímar framundan en eigi verulegur árangur að nást, er nauðsynlegt að innviðir og kerfi lagi sig að breytingunum, þ.e. mörgum litlum orkuuppsprettum.


Góður árangur í umhverfismálum

Samkvæmt nýrri umhverfisvísitölu Yale háskóla - Yales´s Environmental Performance Index (EPI), er Ísland önnur umhverfisvænasta þjóð heimsins á eftir Finnlandi, en EPI vísitalan metur stöðu þjóða gagnvart náttúrunni. Norðurlandaþjóðirnar koma vel út úr þessari mælingu. Næst á eftir Finnum og okkur koma Svíar og Danir en Norðmenn reka lestina í 17. sæti. Þau lönd sem efst eru á þessum lista, komast næst því að geta talist kolvetnishlutlaus. Það sem gerir að verkum að við erum á eftir Finnum eru loftgæði og svifryksmengun, sem tengist væntanlega einkum bílaumferð og notkun nagladekkja.

Þessi niðurstaða er vissulega ánægjuleg tíðindi fyrir okkur Íslendinga. Hins vegar er umræðan um umhverfismál hér á landi ekki alveg í takti við hana. Þar er oftar en ekki gert lítið úr þeim árangri sem náðst hefur í vistvænni orkunotkun og umhverfisvörnum hér á landi. Sérstaklega hafa spjótin beinst að orkusæknum iðnaði og þá sérstaklega áliðnaði. Þetta er eftirtektarvert þegar litið er til þess að íslensku álverin eru í hópi þeirra iðjuvera á heimsvísu sem bestum árangri hafa náð í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hér á landi hefur losun á hvert framleitt tonn t.d. minnkað um 75% frá árinu 1990.

Í erindi dr. Þrastar Guðmundssonar, háskólakennara, á ársfundi Samáls vorið 2015 kom fram að heildarlosun frá íslenskri álframleiðslu væri sexfalt minni en frá sambærilegum álverum sem reist hefðu verið í Mið-Austurlöndum og knúin væru gasorku. Þá væri hún tífalt minni á Íslandi en frá álverum sem knúin væru með kolaorku í Kína.

Almennt tengist losun í álframleiðslu mest orkuþættinum en framleiðslan krefst mikillar orkunotkunar. Á Íslandi er eingöngu notuð endurnýjanleg orka við álframleiðslu, sem þýðir að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna álframleiðslu hérlendis er hlutfallslega margfalt minni en víðast hvar annars staðar í heiminum. Heildarlosun ræðst að verulegu leyti af losun frá raforkuframleiðslunni. Þannig getur heildarlosun frá álveri, sem knúið er raforku frá kolaveri, numið allt að 17 tonnum á hvert framleitt tonn af áli. Á Íslandi er þetta hlutfall ekki nema 1,64 tonn.

Þröstur benti einnig á að stór hluti áls, sem framleitt væri á Íslandi, væri notaður í samgöngutæki í Evrópu. Þar sem aukin notkun áls léttir farartæki, dregur hún mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum. Sparnaðurinn væri tvöfalt meiri en sem næmi losuninni við frumframleiðslu álsins hér á landi. Ef tekið væri með í myndina að ál má endurvinna endalaust, mætti reikna með að sparnaðurinn í losun væri sextánfaldur á við losunina sem yrði við frumframleiðslu álsins hér á landi.

Umhverfisvöktun með álverum á Íslandi er með umfangsmestu umhverfisrannsóknum sem gerðar eru á Íslandi. Rannsóknirnar eru meðal annars framkvæmdar af Umhverfisstofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Matvælastofnun, Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands og fleiri óháðum aðilum.

Í skýrslunni „Aðgerðir í loftlagsmálum“, sem unnin var af samstarfshópi fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra 2013, sést að stóriðjan losaði samtals 1,8 milljónir tonna af koltvísýringi (CO2) út í andrúmsloftið árið 2010 en koltvísýringur er að magni til veigamesta gróðurhúsalofttegundin. Til samanburðar losaði sjávarútvegur 0,58 milljónir tonna af koltvísýringi og landbúnaður 0,65 milljónir tonna. Þar er reyndar undanskilin stórfelld CO2 losun vegna framræsts votlendis sem hækkar tölu landbúnaðarins margfalt.

Eins og greinarhöfundur hefur áður bent á eru flugvélar orkufrekustu farartækin og jafnframt þau sem menga mest. Auk þess virðast engar umhverfisrannsóknir vera framkvæmdar á þessu sviði. Hver þota á flugi losar, að því er talið er, á bilinu 100 til 200 grömm af CO2 að meðaltali á kílómetra og farþega. Sé þetta heimfært á fjölda farþega, sem fóru um Leifsstöð árið 2014, er heildarmagn CO2 sem flugið losar a.m.k. 8,5 milljónir tonna á ári. Þá eru ótaldar þær flugvélar sem hér fljúga yfir án þess að lenda. Flugið mengar þar af leiðandi margfalt á við stóriðjuna hér á landi. Þessi staðreynd hefur einhverra hluta vegna ekki enn ratað inn í umræðuna um umhverfismál.


Atvinnuvegirnir og pólitíkin - 3. hluti

Hér kemur 3. og síðasti hluti greinar þar sem farið verður yfir pólitískar áherslur og átakalínur í málefnum helstu atvinnuvega landsins. Hér verður fjallað um landbúnaðinn og ferðaiðnaðinn.

Landbúnaður
Eins og alls staðar í heiminum er íslenskur landbúnaður niðurgreiddur af ríkinu. Um þetta hefur verið harkalega deilt og nýi búvörusamningurinn er kannski skýrasta dæmið um það. Markmiðið með samningnum er að efla landbúnað en í honum segir að meginmarkmið hans sé að efla íslenskan landbúnað og skapa greininni sóknarfæri. Honum sé ætlað að auka verðmætasköpun og nýta þau tækifæri sem felist í sveitum landsins í þágu bænda, neytenda og samfélagsins alls.

Andstæðingar búvörusamningsins vilja hins vegar að frítt flæði sé inn í landið með landbúnaðarvörur frá Evrópuríkjunum. Þeir hinir sömu halda því fram að búvörusamningurinn komi niður á neytendum Hér vegast á sjónarmið hins frjálsa markaðar og þess ríkisrekna. Hér er því um hápólitískt mál að ræða þar sem fylkingarnar eru klofnar.

Framsókn er gamall bændaflokkur og verður sem slíkur að teljast sá flokkur sem helst styður samningana. Fyrirfram skyldi maður ætla að Sjálfstæðisflokkurinn væri andvígur slíkum samningum en líklegast hefur flokkurinn þurft að beygja sig fyrir Framsókn í þessu máli. Viðreisn er samningunum andvíg og svo á reyndar á við um fleiri flokka.

Ýmis rök má færa fyrir því að frjálst flæði landbúnaðarafurða til og frá landinu myndi lækka verð til neytenda. Þar með er ekki öll sagan sögð þar sem ýmis samfélagsleg áhrif þarf að taka með í reikninginn sem erfitt getur verið að festa tölur á. Einnig hefur verið bent á gæði afurðanna og að þar standi íslenskar afurðir framar þeim erlendu. Hér má t.d. nefna notkun sýklalyfja. Ný skýrsla frá Lyfjastofnun Evrópu (EMA) sýnir að sýklalyfjanotkun í evrópskum landbúnaði sé komin fram úr öllu hófi. Sýklalyfjaónæmi hjá mönnum og dýrum er vaxandi vandamál á heimsvísu þar sem sýklalyf bíta ekki lengur á ónæmar bakteríur. Noregur og Ísland eru þær þjóðir sem koma best út úr öllum samanburði í þessum efnum með sáralitla notkun sýklalyfja í landbúnaði.

Ferðaiðnaður
Ferðaiðnaðurinn hér á landi hefur vaxið með undraverðum hraða og er nú orðinn stærsti atvinnuvegurinn, ef horft er til gjaldeyristekna. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að uppbygging innviða hefur ekki fylgt eftir þessari hröðu þróun og vandamálin blasa því víða við. Það verður því að teljast mikilvægt að þessi málaflokkur verði tekinn fastari tökum en hingað til hefur verið gert.

Erfitt er að átta sig að stefnu stjórnmálaflokkanna í þessum málaflokki en umræðan hefur að mestu snúist um gjaldtöku ferðamanna og/eða hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. Núverandi ríkisstjórnarflokkum hefur ekki borið gæfa til þess að lenda því máli. Hið pólitíska viðfangsefni snýst því aðallega um það hvernig eigi að fjármagna uppbyggingu innviða í kringum ferðamennskuna. Þar eru tveir leiðir; að láta ferðamenn standa undir henni með gjaldtöku eða fjármögnun með skattfé. Það verður spennandi að sjá hvaða lausnir flokkarnir bjóða upp á í þessum málaflokki í komandi kosningum.

 


Atvinnuvegirnir og pólitíkin - 2. hluti

Hér kemur 2. hluti greinar þar sem rennt er yfir pólitískar áherslur og átakalínur í málefnum helstu atvinnuvega landsins. Að þessu sinni er fjallað um sjávarútveginn og orkuiðnaðinn.

Sjávarútvegur
Líklegt verður að teljast að veiðigjaldið og kvótakerfið verði eitt helsta kosningamálið í komandi kosningum enda hefur lengi verið deilt um þessi mál. Hér má segja að víglínan sé nokkuð skýr á milli þess að verja óbreytt ástand og að breyta því. Vinstri stjórnin á síðasta kjörtímabili hækkaði veiðigjaldið verulega en núverandi stjórnarflokkar hafa aftur á móti lækkað það. Segja má að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn styðji núverandi fyrirkomulag en að aðrir flokkar kalli á einhvers konar breytingar.

Líklegt verður því að teljast að ef stjórnarskipti verða á komandi kjörtímabili, verði veiðigjaldið hækkað á ný og/eða að kvótaheimildirnar kallaðar inn, a.m.k. að einhverju leyti. Á síðasta kjörtímabili vinstri flokkanna stóð til að leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka. Af þessu varð þó aldrei. Segja má að stefna nýja stjórnmálaaflsins, Viðreisnar, sé ekki fjarri þessari leið en hún gengur út á að 5% aflaheimilda fari á frjálsan markað á ári hverju.

Sumir óttast að innköllum veiðiheimilda veiki rekstrargrundvöll útgerðarinnar þar sem kvótinn hefur gengið kaupum og sölum um áratuga skeið og fyrirtækin því lagt í verulegan kostnað við að tryggja sér aflaheimildir. Framsal kvótans hefur af mörgun verið talin helsta skýringin á aukinni hagkvæmni í greininni. Einnig benda menn á miklar fjárfestingar sem núverandi „kvótaeigendur“ hafa lagt í sem hafa byggt á vissunni um umráðarétt aflaheimilda til framtíðar. Aðrir halda því fram að innköllun kvóta og endurráðstöfun hans tryggi nýliðun í greininni og verji landsbyggðina gegn kvótayfirtöku en skemmst er að minnast kaupa Granda hf. á kvóta frá Þorlákshöfn. Það er eðli hagræðingar að kvótinn leiti þangað sem hagkvæmast er að nýta hann, til þeirra sem best eru til þess fallnir að reka sjávarútvegsfyrirtækin og það kallar á samþjöppun og fækkun útgerðarstaða.

Orkuðiðnaður
Orkusækinn iðnaður er ásamt sjávarútvegi og ferðaiðnaði einn af máttarstólpum íslensks efnahagslífs. Mjög hefur verið deilt um virkjanakosti á þessu kjörtímabili og erfitt hefur reynst að ná sátt um þá. Alþingi hefur á köflum logað stafnana á milli vegna rammáætlunar. Verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að taka ekki tillit til samfélagslegra og efnahagslegra áhrifa orkunýtingar. Orkuskortur blasir við í landinu sem kemur í veg fyrir áframhaldandi uppbyggingu orkusækins iðnaðar en einnig annars konar iðnaðar. Deilt er um stóriðjuna og það orkuverð sem hún greiðir. Einnig eru náttúruverndarsjónarmið fyrirferðarmikil.

Almennt má segja að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn séu fylgjandi fleiri virkjanakostum og áframhaldandi uppbyggingu orkusækins iðnaðar. Viðreisn telur að skynsamleg nýting náttúruauðlinda sé undirstaða velsældar en vill auðlindagjald fyrir afnotaréttinn. Vinstri flokkarnir eru á bremsunni hvað varðar nýjar virkjanir og stóriðju með þeirri undantekingu þó að VG hefur beitt sér fyrir byggingu kísilmálmvera.

Íslendingar hafa reyndar aldrei verið sammála um ágæti orkusækins iðnaðar. Þeir sem eru á móti stóriðju halda því gjarnan fram að það sé ekki gott að hafa atvinnufyrirtækin í eigu útlendinga, að við seljum raforkuna of ódýrt og að virkjanir stríði gegn sjónarmiðum náttúruverndar. Bygging Kárahnjúkavirkjunar var t.d. kröftulega mótmælt af ýmsum náttúruverndarsamtökum en álverið á Reyðarfirði er knúið með raforku þaðan.

Hins vegar er ótvírætt að orkusækinn iðnaður hefur haft mjög jákvæða þýðingu fyrir efnahag landsins. Landsvirkjun er a.mk. metin á 500 milljarða kr. auk þess sem von er á tugmilljarða arðgreiðslum í náinni framtíð. Þessi ágóði Landsvirkjunar er að langmestu leyti kominn til vegna orkukaupa stóriðjunnar. Aldrei hefði verið lagt í þær stóru virkjanaframkæmdir sem raforkukerfið byggist á hér á landi, nema Landsvirkjun hefði haft traustan orkukaupanda eins og stóriðjuna til lengri tíma litið, til að tryggja sjóðsstreymi til niðurgreiðslu þeirra lána sem fjármögnuðu virkjanirnar. Almenningur nýtur m.a. góðs af þessari tilhögun með einu lægsta orkuverði í Evrópu sem ella væri ekki.

Málefni sjávarútvegsins og orkuiðnaðarins eru flókin og erfið viðureignar og mikil átök hafa verið um þau á hinum pólitíska vettvangi. Það er því orðið tímabært að um þessa málaflokka náist sátt í þjóðfélaginu. Í næstu grein verður fjallað um landbúnað og ferðaiðnað.


Atvinnuvegirnir og pólitíkin - 1. hluti

Atvinnuvegirnir eru undirstaða velferðar í landinu. Nú styttist í kosningar og verður hér í þremur greinum fjallað um stefnu stjórnmálaflokkanna í efnahagsmálum og gagnvart atvinnuvegunum. Einungis verður fjallað um þá flokka sem gera má ráð fyrir að komist á þing skv. skoðanakönunum Gallup og MMR en stjórnmálahreyfing þarf minnst 5% fylgi til að koma manni á þing.

VG er sá flokkur sem er lengst til vinstri á Íslandi. Í efnahagsmálum er stefnan að auðlindirnar séu þjóðareign og að fiskveiðikvótinn verðir afturkallaður. VG aðhyllist ríkisforsjá í flestum málum, vill ríkiseign á fyrirtækjum, minni fyrirtæki og samvinnufélög. VG leggur mikið upp úr byggðastefnu sem kallar á inngrip stjórnvalda. Flokkurinn vill nota skattkerfið til að jafna kjör landsmanna. VG er á móti aðild að ESB og vill herða eftirlit með viðskiptum.

Samfylkingin hefur norræna sósíaldemókrata að fyrirmynd. Þetta þýðir að flokkurinn sættir sig við kapítalismann upp að vissu marki. Samfylkingin er mjög sammála VG um auðlindirnar, skattastefnu, og umhverfismál en í öðrum hlutum efnahagsstefnunnar er áherslumunur milli þessara vinstri flokka. Samfylkingin vill opna markaði en er með sömu áherslur og VG að öðru leyti í atvinnustefnu. Samfylkinginn vill ganga í ESB og aðhyllist viðskiptafrelsi með vissum takmörkunum.

Píratar eru vinstra megin við miðju og virðast vera að staðsetja sig þeim megin í auknum mæli. Gjarnan hefur verið kvartað yfir því að stefna flokksins í mikilvægum efnisflokkum sé óljós. Píratar aðhyllast samt sem áður auðlindarákvæði stjórnlagaráðs og vilja innkalla fiskveiðikvótann. Þeir hafa svipaða stefnu og VG í atvinnumálum. Píratar eru hlutlausir varðandi inngöngu í ESB.

Framsóknarflokkurinn er dæmigerður miðjuflokkur sem sveiflast nokkuð á milli hægri og vinstri, allt eftir málaflokkum. Rætur hans úr samvinnnuhreyfingunni eru mjög áberandi þar sem áherslan er á verndarstefnu og byggðastefnu. Framsókn er sammála vinstri flokkunum um eign á auðlindunum, aðhyllist verndarstefnu og blandaða leið í atvinnumálum. Flokkurinn vill lækka skatta en halda í virðisaukaskattinn og nota tolla til verndar innlendum iðnaði. Framsókn er andvíg aðild að ESB, aðhyllist verndarstefnu og fríverslunarsamninga í milliríkjaviðskiptum.

Viðreisn er nýtt stjórnmálafl sem leggur áherslu á almannahagsnuni umfram sérhagsmuni. Flokkurinn aðhyllist viðskiptafrelsi og markaðslausnir þar sem við á og vill kanna hug landsmanna til ESB með þjóðaratkvæðagreiðslu. Flokkurinn vill skapa fyrirtækjum stöðugt og alþjóðlegt viðskiptaumhverfi án hafta, byggt á stöðugum gjaldmiðli og samkeppnishæfum vaxtakjörum. Skynsamleg og sjálfbær nýting náttúruauðlinda er að mati Viðreisnar undirstaða velsældar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hingað til verið eini hægri póllinn í íslenskum stjórnmálum en með tilkomu Viðreisnar er það skoðun sumra að þeir séu orðnir tveir. Sjálfstæðisflokkurinn aðhyllist markaðslausnir og frálslyndi í atvinnustefnu en vill óbreytt kerfi í sjávarútvegi og landbúnaði. Flokkurinn hefur hægri sinnaða afstöðu í skattamálum sem þýðir sem lægsta skatta. Hann er andvígur inngöngu í ESB en aðhyllist frjálshyggju í milliríkjaviðskiptum.

Eins og sést af þessari yfirferð eru tveir andstæðir pólar í hinu pólítíska landslagi hér á landi líkt og í nágrannalöndunum, hægri og vinstri. Auk þess staðsetja nokkrir flokkar sig nálægt miðjunni. Þróunin hefur verið sú að flokkarnir hafa verið að tileinka sér „það besta“ úr stefnu hver annars og hafa skilin á milli hægri og vinstri því verið á undanhaldi. Sú framvinda birtist í svokölluðu blönduðu hagkerfi. Þetta hugtak felur m.a. í sér að sum gæði eins og vörur og þjónusta, ganga kaupum og sölu á frjálsum markaði og eru framleidd af einkaaðilum en önnur gæði eru framleidd og þeim úthlutað samkvæmt opinberum tilskipunum.

Blandað hagkerfi er því eins konar millistig á milli hreins markaðshagkerfis annars vegar og hreins áætlunarbúskapar hins vegar. Hugtakið áætlanabúskapur lýsir tilskipanahagkerfi og er þá vitnað til þeirrar stefnu sem var rekin í Sovétríkjunum forðum. Togstreitan á milli vinstri og hægri snýst oftar en ekki um að það hve ríkið á að vera fyrirferðarmikið í hagkerfinu og skilgreininguna á ráðstöfunarétti einstaklingsins á þeim tekjum sem hann aflar. Spurningin er hvað kemur atvinnuvegunum best.

Í næstu grein sem birtist innan skamms verður fjallað um áherslur flokkanna gagnvart sjávarútvegi og orkuiðnaði.


Framtíðarsýn á dreifingu raforku

Öll nútímasamfélög ganga fyrir orku og sífellt er leitað leiða til að leysa betur úr vaxandi orkuþörf í heiminum. Virkjaðar orkulindir hafa skilað íslenskum almenningi lágu raforkuverði og orkusækinni starfsemi er skapar þjóðarbúinu tugi milljarða í tekjur á ári. En hver er þróunin í orkudreifingu?

Almennt má segja að flutnings- og dreifikerfi raforku hafi verið hönnuð á 19. öldinni til þess að flytja raforku frá stórum, skilvirkum raforkuverum að miðlægum tengivirkjum og þaðan í gegnum dreifikerfi til notenda. Þannig er málum enn háttað hér á landi og víðar um heiminn en umræðan hér heima um breytingar á þessu sviði hefur einkum snúist um flutningskerfi Landsnets og mögulega stækkun þess.

Í grein eftir Moazzam Husain, sem birtist í vefritinu Electric Power News Today þann 19. júní sl., reifaði greinarhöfundur líklega þróun í þessu sambandi. Þar er m.a. talið að gamla einstefnu-dreifingin muni taka stakkaskiptum á komandi árum og því er vert að spyrja hvort íslensk stjórnvöld taki nægilegt mið af nýjum áskorunum og tækifærum sem blasa við þegar horft er á þróunina erlendis. Ferns konar framvinda er talin líkleg til að knýja á um breytingar:

1. Nýir framleiðsluhættir
Í fyrsta lagi má vænta þess að framleiðsla á endurnýjanlegri orku færist enn í aukana, einkum frá vind- og sólarorkugörðum, og skili sér inn á dreifikerfin. Í þeirri viðleitni að sporna við hnattrænni hlýnun hafa gríðarlegir fjármunir verið veittir til rannsókna og þróunar á slíkum tæknilausnum. Afraksturinn hefur skilað sér í aukinni skilvirkni og stórfelldri lækkun á framleiðslukostnaði raforku. Staðreyndin er sú að sólarorka, jafnvel án niðurgreiðslna, er orðin ódýrari í framleiðslu en jarðefnaeldsneyti, þrátt fyrir miklar lækkanir á olíuverði undanfarin misseri.

2. Sjálfsþurftarbúskapur með afgangsorku
Í öðru lagi munu framleiðslueiningar orku minnka allt niður í heimili sem stunda eins konar sjálfsþurftarbúskap. Fráleitt er að vindorkugarðar muni ryðja trjám burt úr húsagörðum. Hins vegar verða sólarrafhlöður á húsþökum og í glerrúðum æ algengari og rafmagnsgeymar, þ.e.a.s heimilisbatterí sem geyma umframframleiðslu, eru raunverulega komin í notkun víða. Þá eru ótaldar rafstöðvar framtíðarinnar sem byggjast á vistvænni orku á borð við kaldan samruna.

Sú þróun virðist vera að taka við sér í Evrópu að orku frá heimilum sé miðlað inn á dreifikerfi. Þannig getur samtenging margra mjög smárra orkuframleiðenda orðið nýr þáttur í orkubúskap samfélaga. Heimili eru farin að geta framleitt næga orku til eigin nota, jafnvel þannig að umframorka falli til sem unnt er að selja inn á dreifikerfið. Slík þróun mun krefjast mikillar sjálfvirkni á dreifikerfinu til að aðlagast framboðssveiflum orkuframleiðslu af þessu tagi. Vindstyrkur og sólarorka eru einfaldlega breytilegar stærðir sem sveiflast eftir aðstæðum.

Raforkugeymsla gæti verið nauðsynleg á hlutum dreifikerfisins til þess að hægt sé að safna raforkuforða og draga úr álagi þegar umframeftirspurn eða offramboð á sér stað. Allt þetta mun hafa gríðarlega þýðingu fyrir það hvernig dreifikerfi eru starfrækt. Hugtakið snjalldreifikerfi er nærtækt en snjallkerfi verða lykilatrið í að stjórna álaginu, t.d. með lægra verði að nóttu til.

3. Áhrif rafbílavæðingar
Í þriðja lagi er vert að gefa gaum að framþróun háþéttni-rafhlaða, og þá einkum og sér í lagi í rafbílum á næstu 10 - 15 árum. Meðal rafbíll mun þurfa orku sem svarar til orkuþarfar eins til tveggja heimila og mörg heimili hafa fleiri en eina bifreið til umráða. Við getum því gert okkur í hugarlund áhrifin á dreifikerfið á svæðum þar sem fjöldi rafmagnsbíla er mikill, þegar allir setja rafbílana sína í hleðslu, fyrir eða eftir að hafa ekið til eða frá vinnu. Hegðunarmynstur sem minnir á það þegar við stingum öll farsímunum okkar í samband áður en við leggjumst til svefns á kvöldin.

4. Opinn skiptimarkaður
Í fjórða lagi eru uppi hugmyndir um opinn og frjálsan skiptimarkað fyrir notendur, sem gætu keypt, selt og geymt raforku. Þarna færi markaðsverð raforkunnar eftir álagi yfir daginn með gagnvirku verði, strax-verði og framtíðarverði sem hægt væri að semja um.

Í slíkri uppsetningu mætti notast við hugbúnað (app) sem spáir fyrir um orkunotkun hvers notanda, byggða á neyslumynstri hans og bæri hana saman við eigin vistvæna framleiðslu. Hugbúnaðurinn tæki tillit til rafhlöðustöðu heimilisins og ákvæði hvenær viðkomandi notandi ætti að kaupa, geyma eða selja raforku inn á netið, þannig að niðurstaðan yrði honum sem hagkvæmust. Gengi slík tilhögun eftir, gætum við vænst þess að geta lækkað rafmagnsreikning okkar til heimilishaldsins og greitt minna fyrir orkuna en ella.

Spurningin hlýtur að vera hvernig þróun við viljum sjá á íslenskum orkumarkaði, með tilliti til þess hvað er að gerast erlendis. Að óbreyttu mun sá tími líklega renna upp að framleiðsla og dreifing á raforku á Ísland verði með dýrara móti í heiminum. Við þurfum því að ákveða hvort það fyrirkomulag sem hentað hefur ágætlega síðan um miðja 20. öldina, sé sú leið sem við viljum fara inn í miðja þessa öld eða hvort tími sé kominn á nýja hugsun.


Auðlindasjóður

Á aðalafundi Landsvirkjunar í vor sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, að hann vildi setja á laggirnar sérstakan auðlindasjóð sem nýta ætti sem varasjóð. Ráðherrann hafði arðgreiðslur Landsvirkjunar af orkuauðlindinni í huga í þessu sambandi en gert er ráð fyrir að þær aukist verulega á komandi árum. Hugmyndin er að nýta sjóðinn til að jafna sveiflur í efnahagslífinu. Þannig yrði safnað í sjóðinn í uppsveiflum en veitt úr honum í niðursveiflum. Hugmynd Bjarna er af svipuðum meiði og hugmyndafræðin að baki olíusjóðnum norska.

Hugmynd þessi er ekki ný af nálinni þar sem þverpólitísk auðlindanefnd á vegum Alþingis lagði t.d. til árið 2000 að stofnaður yrði þjóðarsjóður þar sem tekjur af þjóðarauðlindum yrðu lagðar inn og þær notaðar til sparnaðar og uppbyggingar. Hugmyndin hefur síðan nokkrum sinnum skotið upp kollinum í mismunandi útfærslum. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, setti t.d. á fót svokallaða auðlindastefnunefnd, sem skilaði af sér tillögum haustið 2012. Nefndin lagði til að stofnaður yrði auðlindasjóður sem hefði m.a. það hlutverk „að tryggja að auðlindaarður og meðferð hans yrði sýnileg“.

Beingreiðslur til almennings
Í skýrslu hins þekkta hagfræðings Lars Christensens um íslenska orkumarkaðinn (Our Energy 2030), sem nýlega var unnin fyrir Samtök iðnaðarins, leggur Lars m.a. til að komið verði á laggirnar sérstökum auðlindasjóði. Sjóðurinn myndi svo greiða arð til hvers og eins Íslendings á hverju ári þegar svo bæri undir. Í þessu sambandi vísaði Lars til auðlindasjóðs Alaska (Permanent fund) sem greiðir íbúum ríkisins tiltekna fjárhæð árlega vegna tekna af auðlindum í eigu samfélagsins.

Lars fjallaði svo nánar um þessar hugmyndir sínar um auðlindasjóð í grein sinni, „Ísland þarf auðlindasjóð“, í viðskiptablaði Morgunblaðsins 8. júní sl. Þar sagði hann m.a.: ...„Þess í stað legg ég til að árlegur hagnaður auðlindasjóðsins verði greiddur til allra Íslendinga í formi þess sem ég kalla borgaraarð frekar en að láta peningana falla í þá stóru, djúpu holu sem kallast fjármál hins opinbera... Ef þið trúið þvi að náttúrauðlindir Íslands séu eign þjóðarinnar, þá ættuð þið að fá „leiguna“ af auðlindunum í stað þess að ríkið taki hana“. Það er því grundvallarmunur á hugmyndum Lars og fjármálaráðherra um auðlindasjóð og mikilvægt að almenningur segi sína skoðun á slíku hagsmunamáli.

Ef slíkum sjóði yrði komið á, þyrfti að tryggja að þau fyrirtæki sem fara með auðlindirnar skili ásættanlegum arði, bruðli ekki með almannafé og verðleggi ekki vörur sínar of hátt sem leiðir til velferðartaps. Hér má nefna fyrirtæki eins og Landsvirkjun sem skákar í skjóli fákeppni á raforkumarkaði. Slík fákeppni með sjálfdæmi um verðlagningu býður hættunni heim, að mati Lars. Velferð þjóðarinnar felst nefnilega ekki í því að hámarka hagnað Landsvirkjunar á kostnað heildarhagmuna þjóðarbúsins.

Auðlindarenta
Lengi hefur verið deilt um auðlindarentuna í sjávarútvegi, hvað hún eigi að vera há og hvernig skuli útfæra hana. Eins og með sjávarútveginn, hafa menn tekist hart á um stóriðjuna. Þær raddir hafa verið háværar að lítið af arðsemi álveranna sitji eftir í landinu og að það orkuverð sem álverin greiða sé of lágt. Á móti hefur því verið haldið fram að hið lága orkuverð sem heimilin í landinu greiða sé hluti af þeim arði sem álverin greiða til landsmanna. Ekki má heldur gleyma mjög góðri arðsemi Landsvirkjunar um langt árabil sem að langmestu leyti er til komin vegna stóriðjunnar.

Hvað með ferðaiðnaðinn?
Auðlindasjóður ætti að ná utan um nýtingu og arðsemi allra nátturauðlinda landsins. Stóriðjan og sjávarútvegurinn hafa hingað til verið i kastljósinu hvað það varðar. Eðlilegt er gera kröfu til þess að ferðaiðnaðurinn leggi einnig sitt af mörkun í slíkan sjóð. Alveg eins og sjávarútvegurinn og stóriðjan, nýtir ferðaþjónustan náttúruauðlindir landsins sér til tekna sem þýðir að eðlilegt er að gera tilkall til hennar í þessu samhengi.

Almenn sátt ríkir um auðlindasjóðinn í Alaska. Á sínum tíma, þegar stjórnmálamenn sóttust eftir að fá heimild til að eyða fjármunum úr sjóðnum, voru 84% kjósenda því mótfallin. Sjóðurinn er talinn hafa aukið jöfnuð og dregið úr fátækt í Alaska. Reynsla Íslendinga af opinberum sjóðum er hins vegar ekki góð. Hér má t.d. nefna Íbúðalánasjóð sem hefur tapað ógrynni fjár auk þess sem ekki hefur verið sátt um starfsemi hans á markaðnum.

Stofnun auðlindasjóðs hér á landi er leið sem full ástæða er til að skoða vel. Reynslan af auðlindasjóðnum í Alaska er mjög góð. Sama má reyndar segja um olíusjóð Norðmanna. Alaskaleiðin væri þó, að mati greinarhöfundar, betur til þess fallin að skapa sátt meðal þjóðarinnar um nýtingu náttúruauðlinda og skiptingu þess arðs sem af þeim hlýst. Engum vafa er undirorpið að á því er full þörf enda er varla til sá Íslendingur sem ekki hefur sterka skoðun á því máli.


Rafbílavæðing Íslands

Á stefnuskrá ríkisstjórnarinnnar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. með því að efla vistvænar samgöngur. Ein áhrifamesta aðgerðin á því sviði væri að rafbílavæða Ísland. Endurnýjanlegar og vistvænar auðlindir gera þjóðinni kleift að vera í fararbroddi á þessu sviði.

Orkuskipti í samgöngum kalla á markvissar aðgerðir stjórnvalda og orkufyrirtækjanna. Rafbílar eru að verða raunhæfur kostur og flestir, ef ekki allir stórir bílaframleiðendur framleiða nú slíkar bifreiðar.

Orkuskipti af þessu tagi eru kostnaðarsöm og kalla á miklar fjárfestingar í innviðum. Íslendingar búa hins vegar við þann munað að rafmagn er fáanlegt um allt land með dreifikerfi sem nú þegar er til staðar. Verkefnið kallar á að settar verði upp hraðhleðslustöðvar um allt land.

Ávinningur af rafbílavæðingu
Það ætti að vera verulegur þjóðhagslegur ávinningur af því að nota innlenda orkugjafa í stað innflutts jarðefnaeldsneytis. Megnið af innfluttu eldsneyti Íslendinga er notað við fiskveiðar og í samgöngum eða um 90% af innfluttri olíu. Reikna má með að andvirði innflutts eldsneytis hafi verið tæplega 80 milljarðar árið 2015. Þessi tala lækkaði hins vegar um tæplega 20 milljarða frá árinu 2014 vegna styrkingar íslensku krónunnar og lækkandi eldneytisverðs á heimsmarkaði. Ljóst er af þessum tölum að mjög verulegur gjaldeyrissparnað næðist ef bílaflotinn yrði rafvæddur.

Á móti vegur að skatttekjur ríkisins af jarðeldsneyti myndu lækka mikið sem reyndar kæmi sér vel varðandi lækkuð eldsneytisútgjöld almennings. Það má þó gera ráð fyrir að tekjur orkufyrirtækjanna af raforkusölu tengdri rafbílum og skatttekjur ríkisins af þeirri starfsemi myndu vega þar upp á móti.

Við bruna jarðefnaeldsneytis, sem að stærstum hluta er kolefni, myndast mikið magn koldíoxíðs (CO2). Koldíoxíð er ein þeirra lofttegunda sem valda auknum gróðurhúsaáhrifum, en aukning þessara áhrifa kann að leiða til veðurfarsbreytinga með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir lífið á jörðinni.

Umhverfisstofnun fylgist með útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi, en um 82% þeirra er koldíoxíð. Drjúgur hluti er tilkominn vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti þannig að áhrif eldsneytisnotkunar á losun gróðurhúsalofttegunda eru augljós. Rafbílavæðing myndi þannig auðvelda Íslandi að uppfylla Parísarsamkomulagið en eins og kunnugt er náðist þar söguleg sátt í desember sl. um hertar aðgerðir í loftlagsmálum á heimsvísu.

Síðast en ekki síst myndu orkuskiptin efla sjálfbærni landsins. Þær breytingar væru í samræmi við samþykktir Sameinuðu þjóðanna sem hafa skilgreint hugtakið sjálfbærni þannig að hún mæti þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum.

Hvað þarf að gera?
En hvað geta stjórnvöld og orkufyrirtækin gert til að hraða þessari þróun? Bent hefur verið á þá leið að hækka skatta vegna notkunar á mengandi eldsneyti. Í því tilviki er verið að setja verðmiða á kolefni. Að sama skapi er mikilvægt að hagkvæmni endurnýjanlegra orkugjafa verði aukin fyrir neytendur. Augljós leið er að festa til langframa lækkaðan virðisaukaskatt og niðurfellingu á vörugjöld af innfluttum rafbílum.

Norðmenn hafa nýlega sett sér skýra stefnu á þessu sviði. Markmiðið er að árið 2025 losi engir innfluttir bílar gróðurhúsalofttegundir. Norðmenn munu reyndar leyfa sölu á á svo kölluðum tvinn-bílum lengur en þeir eru knúnir með blöndu af raforku og jarðaefnaeldsneyti. Hollendingar hyggjast feta í fótspor Norðmanna en þessar hugmyndir eru til umfjöllunar á hollenska þinginu. Þar í landi er bensínstöðvum nú þegar skylt að bjóða viðskiptavinum upp á hleðslu af rafknúin farartæki.

Orkufyrirtækin þurfa augljóslega að setja þetta mál á stefnuskrá. Væri það kannski verðugra verkefni fyrir Landsvirkjun og Landsnet að verja kröftum sínum á þessu sviði, í stað þess að starblína á lagningu sæstrengs til Bretlands, sem er alls óvíst að sé þjóðhagslega hagkvæmur?


Hagvöxtur landshluta 2009-2013

Í desember sl. gaf Hagfræðistofnun Háskóla Íslands út skýrslu um hagvöxt eftir landshlutum fyrir tímabilið 2009-2013. Margt athyglisvert kemur fram í skýrslunni. Hagvöxtur reyndist vera mjög misjafn á milli landshluta en hann var mestur á Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi vestra. Mesti hagvöxturinn mældist á Vesturlandi, eða 13% á tímabilinu. Mest dróst framleiðslan hins vegar saman á Suðurnesjum og Vestfjörðum, eða um 11-12%.

Sé horft á þróun hagvaxtar frá aldmótum til 2013, standa þrjú svæði upp úr: Þau eru Vesturland, Austurland og höfuðborgarsvæðið. Lítum nánar á nokkur svæði:

Vesturland
Á tímabilinu mældist hagvöxtur langmestur á Vesturlandi. Skýringuna er fyrst og fremst að finna í uppbyggingu stóriðjunnar á Grundartanga en þriðjungur af framleiðslu svæðisins kemur frá stóriðju og veitum. Sérstaka athygli vekur að hlutdeild verslunar, hótela, veitingahúsa, samgangna og skyldra greina er aðeins um 10% og dregst saman frá árinu 2009. Þessi hlutdeild er hvergi minni en á Vesturlandi og Austurlandi. Þetta er athyglisvert í ljósi mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna á tímabilinu. Allt bendir til þess að ferðamenn staldri stutt við á Vesturlandi og að þeir verji ekki miklum fjármunum á svæðinu. Reikna má með að hlutdeild iðnaðar á Vesturlandi fari vaxandi á komandi árum þar sem til stendur að byggja nýtt kísilver á Grundartanga.

Höfuðborgarsvæðið
Á höfuðborgarsvæðinu mældist hagvöxturinn 5% á tímabilinu. Verslun, hótel, veitingahús og samgöngur skýra rúmlega helming þessa vaxtar. Þjónustgreinar standa undir 80% af framleiðslu höfuðborgarsvæðisins en 55% á landsbyggðinni. Framleiðsla jókst meira á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu var um 3% á sama tíma og 1% fækkun varð utan þess. Hlutur höfuðborgarsvæðisins í landsframleiðslu er rúmlega 70% og fer hann vaxandi.

Norðurland vestra
Á Norðurlandi vestra (NV) var hagvöxtur svipaður og á landinu öllu, eða um 4%. Vöxturinn dreifist á margar greinar, svo sem sjávarútveg, landbúnað, verslun, samgöngur og skylda starfsemi. Hlutur NV af landsframleiðslu var rúmlega 1,5% árið 2013. Byggð á NV er tiltölulega dreifð og jafnframt deilist vinnuafl jafnar á atvinnugreinar en annars staðar á landinu. Í Skagafirði eru 4.000 íbúar sem gerir svæðið að öflugu atvinnusvæði. Á NV er opinber þjónusta stærri hluti af framleiðslunni en annars staðar á landsbyggðinni.

Austurland
Á þessu svæði var hagvöxturinn 1% á tímabilinu 2009-2013. Hagvöxturinn á þessu svæði var hins vegar mestur á öllu landinu tímabilið 2009-2011 en dróst svo saman tvö síðustu árin. Mestur mældist vöxturinn í umsvifum stóriðju og í sjávarútvegi. Sjávarútvegurinn hefur lengi verið uppistaðan í atvinnulífi Austfirðinga en nú hefur álverið á Reyðarfirði bæst við og styrkt svæðið til muna. Greiðari samgöngur hafa einnig átt sinn þátt í að styrkja svæðið og hafa í auknum mæli gert fleira fólki kleift að starfa í álverinu. Á Egilsstöðum er að finna miðstöð verslunar, mennta og samgangna sem nýtist svo til öllum á svæðinu en rúmlega 9 þúsund manns geta nú ekið til þangað á innan við klukkustund.

Suðurnes
Hlutur Suðurnesja í landsframleiðslu var um 5% árið 2013. Fasteignaverð hefur lækkað 27% að raungildi frá árinu 2009 og var það mun meiri lækkun en í öðrum landshlutum. Skýringuna er líklega að finna í offramboði á húsnæði sem myndaðist þegar bandaríska herliðið fór frá Keflavíkurvelli. Hlutur verslunar, hótela, veitingastarfsemi og samgangna er fjórðungur af framleiðslu á Suðurnesjum. Nálægðin við Keflavíkurflugvöll og Bláa lónið skiptir þar mestu. Hlutur sjávarútvegs á svæðinu er minni en annars staðar utan höfuðborgarsvæðisins. Fiskvinnsla hefur hins vegar sótt í sig veðrið og skiptir nálægðin við Keflavíkurflugvöll eflaust þar mestu máli.

Vestfirðir
Sýnu verst virðist þróunin vera á Vestfjörðum. Hlutur Vestfjarða í landsframleiðslu er 1,5%. Sjávarútvegur er undirstaða byggðar í þessum landshluta en umsvif í þeim geira hafa dregist saman á tímabilinu. Afkoma greinarinnar virðist einnig vera lakari á svæðinu en í öðrum landshlutum.

Fólki á svæðinu fækkaði um 6% á tímabilinu. Það eru ótvíræðar vísbendingar um að sjávarútvegur eigi í vök að verjast á Vestfjörðum og það er vissulega áhyggjuefni. Þó má greina ýmis jákvæð teikn á lofti sem tengjast fiskeldi. Mikil uppbygging á þessu sviði hefur átt sér stað á Suðurfjörðunum og eru vonir bundnar við að hún hafi jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun til framtíðar.


Margföld áhrif ferðamennsku

Ferðaiðnaðurinn hér á landi vex með undraverðum hraða. Samkvæmt nýrri spá Samtaka ferðaþjónustunnar má reikna með að heildargjaldeyristekjur í ferðaþjónustunni á þessu ári muni nema tæplega 370 milljörðum króna. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að uppbygging innviða hefur ekki fylgt eftir þessari hröðu þróun og vandamálin blasa því víða við. Mikið er rætt um vaxtarverki ferðageirans en minna fer fyrir umræðunni um umhverfisáhrif greinarinnar.

Gríðarleg flugmengun
Flugvélar eru orkufrekustu farartækin okkar og jafnframt þau sem menga mest. Flugið mengar t.d. margfalt á við stóriðjuna hér á landi en fæstir gera sér grein fyrir því. Hver þota á flugi losar, að því er talið er, á bilinu 100 til 200 grömm af koltvísýringi (CO2) að meðaltali á kílómetra og farþega. Sé þetta heimfært á fjölda farþega, sem fóru um Leifsstöð árið 2014, er heildarmagn CO2 sem flugið losar a.m.k. 8,5 milljónir tonna á ári en koltvísýringur er að magni til veigamesta gróðurhúsalofttegundin.

Við þetta bætist að áhrif af mengun í háloftunum eru mun alvarlegri en af mengun á jörðu niðri, m.a. vegna þess að mengun flugvéla leiðir beint í ósonlagið. Stóru flugvélaframleiðendurnir, Airbus og Boeing, eru reyndar að þróa nýjar gerðir þotuhreyfla sem hugsanlega munu ekki þurfa á kolefniseldsneyti að halda eins og nú er. Spennandi verður að fylgjast með þeirri framvindu.

Í skýrslunni „Aðgerðir í loftlagsmálum“, sem unnin var af samstarfshópi fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra 2013, sést að stóriðjan losaði samtals 1,8 milljónir tonna af CO2 út í andrúmsloftið árið 2010. Til samanburðar losaði sjávarútvegur 0,58 milljónir tonna af koltvísýringi og landbúnaður 0,65 milljónir tonna, en þar er reyndar undanskilin stórfelld CO2 losun vegna framræsts votlendis. Því er ljóst að ferðaiðnaðurinn losar margfalt meiri koltvísýring en aðrar greinar hér á landi og er þá ótalin sú losun sem tengist bílaleigubílum ferðamanna.

Vegvísir í ferðaþjónustu
Veigamikil stefnumótun í ferðaiðnaðinum liggur fyrir. Til að stuðla að farsælli þróun í ferðaþjónustu á Íslandi tóku iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem jafnframt er ráðherra ferðamála, og Samtök ferðaþjónustunnar nýlega höndum saman um mótun stefnu í ferðaþjónustu til lengri tíma með áherslu á sjálfbæra þróun. Stefnan gengur undir nafninu Vegvísir í ferðaþjónustu. Helstu markmiðin eru að tryggja jákvæða upplifun ferðamanna, aukna dreifingu þeirra um landið, arðsemi greinarinnar og jákvætt viðhorf til ferðaþjónustunnar.

Vegvísirinn inniheldur háleit markmið og aðgerðaáætlun um sjálfbærni. Framkvæmdir hafa hins vegar staðið á sér og málsmetandi menn telja að sömu vandamálin blasi við í dag og gerðu fyrir 10 árum. Deilt hefur verið um fjármögnun þeirra aðgerða sem eru nauðsynlegar til að bæta aðgengi og öryggi ferðamanna og hugmyndir um svokallaðan ferðamannapassa hafa fallið í grýttan jarðveg. Ljóst er því að þessi mál eru í ákveðnu öngstræti. Nýlega var svo Stjórnstöð ferðamála sett á laggirnar en hlutverk hennar að samræma aðgerðir í ferðaþjónustunni.

Varhugaverð þróun
Erlendis hefur hins vegar verið varað við því að ferðaiðnaðurinn hér á landi sé orðinn að fjöldaiðnaði og því hafi dregið verulega úr gæðum hans hér. Engin stefna virðist vera til um það hve marga ferðamenn eigi að fá til landsins eða þá hvers konar ferðamönnum skuli helst sóst eftir. Ferðamönnum fjölgar því stefnulaust frá ári til árs. Þetta er auðvitað uppgrip fyrir flugfélög, hótel og önnur ferðaþjónustufyrirtæki. Hins vegar flokkast náttúra Íslands, og þá kannski sérstaklega vinsælir ferðamannastaðir, undir takmarkaða auðlind.

Átroðsla lands vegna erlendra ferðamanna er vaxandi vandamál um allt land. Vinsælir ferðamannastaðir ráða orðið illa við ásókn og umferð. Hér má nefna staði eins og Landmannalaugar, Hveravelli, Geysi og Látrabjarg. Greinarhöfundur var á ferð við Látrabjarg í fyrra og þar gengu ferðamenn um á forarstígum alveg fram á bjargbrún þar hvergi mátti sjá öryggisgirðingar.

Bygging þar til gerðra göngustíga er lausn á hluta þessa vanda en skipulagstengd uppbygging hefur víða setið á hakanum vegna fjárskorts. Sveitarfélögin hafa gagnrýnt hve lítið af heildartekjum ferðaiðnaðarins skilar sér til þeirra í formi skatttekna og því hafa þau takmarkað fjármagn til slíkra framkvæmda. Ein lausn gæti verið einhvers konar kvótakerfi þar sem aðgangur yrði takmarkaður á vinsælum stöðum eins og þekkist víða erlendis varðandi náttúruperlur.

Hugtakið harmleikur almenninganna (e. Tragedy of the commons) kemur upp í hugann í þessu sambandi en það er áberandi hugtak í umræðunni um sjálfbæra þróun. Hugtakið er notað til þess að skýra hvers vegna sameiginlegar auðlindir eru oft nýttar óhóflega af einstökum aðilum, ef miðað er við heildarhagsmuni samfélagsins. Ein birtingarmynd þessa vandamáls er sú að sameiginlegar auðlindir eru ofnýttar af fyrirtækjum sem hafa óskert aðgengi að þeim. Þetta virðist allt ríma vel við þær afleiðingar sem nú sjást af þeirri ferðamannastefnu sem hér hefur verið rekin undanfarin ár.

Hrópandi tómlæti
Í allri þeirri vinnu sem hefur verið unnin í sambandi við stefnumótum ferðaþjónustunnar er ekki að finna einn staf um losunarmarkmið. Þetta er undarlegt þar sem fyrrnefndur Vegvísir leggur mikla áherslu á náttúruvernd og sjálfbærni. Fjöldi ferðamanna á þessu ári verður líklegast um 1,5 milljónir og af þeim hlýst veruleg mengun með komu flugvéla til landsins, bílaleigubílum, auk átroðslu lands og álags á vegakerfi.

Áhugavert er að velta því fyrir sér af hverju þessi hlið málsins er ekki rædd á sama hátt og gert er um aðrar greinar. Er ferðaiðnaurinn undanþeginn umræðunni um umhverfismál, eru menn blindaðir af „gullæðinu“ eða hefur þessi efnisflokkur einfaldlega gleymst í öllum látunum? Er ekki sjálfsagt að gerðar séu sömu kröfur um ferðaiðnaðinn og gerðar eru til annarra atvinnugreina um umhverfisvernd?


Næsta síða »

Um bloggið

Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur

Þorsteinn Þorsteinsson
Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur starfar sem markaðsráðgjafi og markaðsrýnir. Hann er rekstrarhagfræðingur (M.Sc.) frá Lund University, og er framkvæmdastjóri Markaðsrýni ehf.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Visa
  • 500
  • 10000
  • 10000
  • 10000

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband